„Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum.“
Öll hafa fengið mismunandi uppeldi. Það getur verið lærdómsríkt að líta til baka og fara yfir það sem manni fannst gott og það sem hefði mátt betur fara í sínu uppeldi. Það eru líkur á að foreldrar ali börn sín upp á svipaðan hátt og þeir voru aldir upp sjálfir ef þeir leita sér ekki upplýsinga og fræðslu um uppeldi barna og velta fyrir sér hvað sé barninu fyrir bestu.
Breytingar á þjóðfélaginu
Á síðustu öld urðu miklar breytingar á þjóðfélaginu sem hefur jafnframt leitt til breytinga á fjölskyldugerð og fjölskyldulífi. Þessar miklu breytingar hafa orðið til þess að uppeldi er talið vera flóknara en áður fyrr og foreldrar eru ekki jafn vissir um hvað felst í uppeldishlutverkinu. Nú er einblínt á hvað sé barninu fyrir bestu og hver sé réttur þess. Því er ábyrgð foreldra mikil og huga þarf að mörgu til þess að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til foreldra nú til dags.
Heimildir
Barnalög nr. 28/2003.
Hrund Þórarinsdóttir og Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2010). Sýn foreldra á uppeldishlutverk sitt. Í Salvör Nordal, Sigrún Júlíusdóttir og Vilhjálmur Árnason (ritstjórar), Velferð barna, gildismat og ábyrgð samfélags (bls. 115–133). Siðfræðistofnun-Háskólaútgáfan.
Nichols, M. P. (2017). Family therapy: Concepts and methods. (11. útgáfa). Gardner Press.
Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2019). Lífssaga Ernu. Í Hafdís Ingvarsdóttir (ritstjóri), Lífssögur ungs fólks: Samskipti, áhættuhegðun, styrkleikar (bls. 41–69). Háskólaútgáfan.