Samskipti er hæfni sem þróast frá fæðingu barns og skipta þau strax miklu máli þar sem þau eru leið einstaklinga til þess að skilja heiminn.
Þættir líkt og tengsl, nánd, hlýja, öryggi og traust myndast í samskiptum þegar tveir aðilar tala saman augliti til auglitis og finna fyrir því að hlustað sé á sig. Með því að einstaklingar sýni hver öðrum áhuga, hlusti vel á það sem aðrir hafa að segja og séu til staðar þegar átt er í samskiptum séu þeir ekki aðeins að sýna virðingu og umhyggju heldur einnig hlúa að sjálfsvirðingu mótaðilans, sjálfstrausti og sjálfsáliti.
Setja sig í spor annarra
Sýna virðingu
Sýna umhyggju
Taka tillit til annarra
Góður málþroski
Félagslegur þroski
Tilfinningalegur þroski
Siðferðilegur þroski
Þegar foreldrar eiga í samskiptum við börn sín eru þeir að rækta og styrkja tengslin við þau ásamt því að leggja grunn að góðum samskiptum við börnin á unglingsárunum og í framtíðinni.
Til eru ýmsar leiðir til þess að þróa og styrkja samskiptahæfni barna.
Hér fyrir neðan eru til að mynda tvær góðar leiðir:
Þegar verið er að þróa samskiptahæfni barna er virk hlustun foreldra til barna sinna mikilvæg. Virk hlustun er ákveðið ferli samskipta, það er að segja þegar foreldrar nota virka hlustun eru þeir að taka við upplýsingum frá barninu og reyna að skilja hvað það á við. Þegar þeir hafa móttekið upplýsingar frá barninu færa síðan foreldrar skilning sinn í eigin orð og útskýra það sem barnið var að segja til þess að fá það staðfest hvað barnið hafi verið að meina. Foreldrar eru ekki að senda sínar eigin upplýsingar, eins og gildismat, skoðanir og ráð til barnsins, heldur segja þau aðeins til baka það hvernig þau hafi skilið upplýsingar frá barninu, ekkert meira og ekkert minna.
Ég boð og þú boð
Ég boð og þú boð hafa reynst foreldrum vel til þess að eiga góð samskipti við börn sín án þess að þau upplifi sig sem uppsprettu vanlíðunar foreldra sinna. Það kemur fyrir að foreldrar séu þreyttir eða illa upp lagðir en þá er auðvelt að verða skipandi og nota svokölluð þú boð.
Þú boðin lýsa sér þannig að foreldri segir “þú ert alltaf með svo mikil læti” og barnið túlkar það þannig að það sé slæmt eða vont á einhvern hátt. Til þess að koma í veg fyrir það er betra að nota ég boð.
Ég boðin lýsa sér þannig að foreldri útskýrir líðan sína og segir við barnið sitt “ég er orðin svolítið þreytt í höfðinu á þessum látum, eigum við að lækka aðeins í okkur?”, þá eru minni líkur á að barnið fari að kenna sjálfu sér um líðan foreldra sinna.
Með því að notast við ég boð í stað þú boð eru meiri líkur á að barnið breyti hegðun sinni og beri ábyrgð á henni.
Ítarefni
Bókin „Samskipti foreldra og barna: Að ala upp ábyrga æsku“:
https://www.forlagid.is/vara/samskipti-foreldra-og-barna/
Heimildir
Feldman, R. S. (2012). Child development (6. útgáfa). Pearson.
Gordon, T. (2011). Samskipti foreldra og barna: Að ala upp ábyrga æsku (Ingi Karl Jóhannesson þýddi). IÐNÚ (frumútgáfa 1999).
Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2019). Samskipti. Í Hafdís Ingvarsdóttir (ritstjóri), Lífssögur ungs fólks: Samskipti, áhættuhegðun, styrkleikar (bls. 169–173). Háskólaútgáfan.
Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2019). Uppeldissýn unga fólksins. Í Hafdís Ingvarsdóttir (ritstjóri), Lífssögur ungs fólks: Samskipti, áhættuhegðun, styrkleikar (bls. 116–131). Háskólaútgáfan.
Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2019). Virðing og umhyggja í uppeldi. Í Hafdís Ingvarsdóttir (ritstjóri), Lífssögur ungs fólks: Samskipti, áhættuhegðun, styrkleikar (bls. 110–115). Háskólaútgáfan.
Sigrún Aðalbjarnardóttir og Selman, R. L. (2019). Samskiptahæfni - Fræðilíkan. Í Hafdís Ingvarsdóttir (ritstjóri), Lífssögur ungs fólks: Samskipti, áhættuhegðun, styrkleikar (bls. 179–197). Háskólaútgáfan.
Tamis-LeMonda, C. S., Kuchirko, Y. A., Escobar, K. og Bornstein, M. H. (2019). Language and play in parent-child interaction. Í M. H. Bornstein (ritstjóri), Handbook of Parenting (bls. 189–190). Routledge.