Ein þekktasta flokkun uppeldisaðferða er byggð á kenningu Baumrind og síðari viðbótum Maccoby og Martin. Rannsókn Baumrind fól í sér að skoða samskipti foreldra við börn sín, hvernig hegðun börnin sýndu og hvernig foreldrar stjórnuðu börnum sínum, hvað það var sem einkenndi samskiptin á milli þeirra. Hvernig skýringar notuðu foreldrar í samskiptum við börnin og hvaða kröfur gerðu foreldrarnir til tilfinningalegs, vitsmunalegs og félagslegs þroska þeirra. Út frá niðurstöðum flokkaði Baumrind uppeldishætti foreldra í þrjá flokka: Leiðandi, skipandi og eftirlátir. Síðar bættu Maccoby og Martin við fjórða uppeldishættinum og nefndu hann afskiptalausir uppeldishættir.
Hér verður fjallað nánar um leiðandi uppeldi
Það sem einkennir foreldra sem styðjast við leiðandi uppeldishætti er að þeir einblína á þroska barnsins og taka vel á móti hugmyndum þess. Barnið er hvatt til þess að útskýra sjónarmið sín og eiga góðar samræður við foreldra sína. Barninu er sýnd mikil hlýja og uppörvun en á sama tíma eru sett skýr mörk um hvað sé viðeigandi og notað til þess útskýringar.
Kostir leiðandi uppeldis eru margir en börn sem hafa verið alin upp við leiðandi uppeldi, borið saman við börn sem hafa verið alin upp við einhvern af hinum uppeldisháttunum, sýna fram á:
Betri samskiptahæfni
Meiri hæfni í að setja sig í spor
annarra
Gengur betur námslega
Aukið sjálfsálit
Betri líðan
Minni depurð
Meiri sjálfstjórn
Ólíklegri til þess að neyta vímuefna
Sýndu síður áhættuhegðun
Ef þú vilt fylgja leiðandi uppeldi þá getur verið gott að styðjast við eftirfarandi atriði:
Ást - Sýna barninu mikla hlýju og uppörvun.
Agi - Setja skýrar reglur og hafa góða ástæðu fyrir hvers vegna skal fylgja þeim.
Samskipti - Hvetja barnið til þess að útskýra sjónarmið sín og eiga góðar samræður við það. Taka vel á móti hugmyndum barnsins.
Þroski - Einblína á að mæta barninu á því þroskastigi sem það er.
Ítarefni
Bókin "Lífssögur ungs fólks: Samskipti, áhættuhegðun, styrkleikar":
https://www.forlagid.is/vara/lifssoegur-ungs-folks/
Heimildir
Baumrind, D. (1966). Effects of authoritative parental control on child behavior. Society for Research in Child Development, 37(4), 887–907. https://www.jstor.org/stable/pdf/1126611.pdf
Hrund Þórarinsdóttir og Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2010). Sýn foreldra á uppeldishlutverk sitt. Í Salvör Nordal, Sigrún Júlíusdóttir og Vilhjálmur Árnason (ritstjórar), Velferð barna, gildismat og ábyrgð samfélags (bls. 115–133). Siðfræðistofnun-Háskólaútgáfan.
Maccoby, E. E. og Martin, J. A. (1983). Socialization in the context of the family: Parent-child interaction. Í P. H. Mussen (ritstjóri), Handbook of Child Psychology. (4. útgáfa) (bls. 1–87). John Wiley & Sons.
Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2019). Aðferð. Í Hafdís Ingvarsdóttir (ritstjóri), Lífssögur ungs fólks: Samskipti, áhættuhegðun, styrkleikar (bls. 97–108). Háskólaútgáfan.
Sigrún Aðalbjarnardóttir. (2019). Uppeldisaðferðir foreldra. Í Hafdís Ingvarsdóttir (ritstjóri), Lífssögur ungs fólks: Samskipti, áhættuhegðun, styrkleikar (bls. 132–140). Háskólaútgáfan.